895-1050 - Stór-Reykjavíkursvæðið

849-4012 - Akureyri

Dr. Bob, sem ásamt Bill W. er talinn stofnandi AA-samtakanna, hætti að drekka 10. júní 1935 og miðast stofnun samtakanna við þá dagsetningu. Með fulltingi þeirrar hugmyndafræði, sem þeir lögðu til grundvallar, hafði tveim árum seinna nógu mikill fjöldi alkóhólista verið allsgáður nægilega lengi til að sannfæra menn um að nýtt ljós væri tekið að skína í undirheimum ofdrykkjunnar.

Þeir tóku nú þá ákvörðun að draga saman reynslu sína og gefa út í bókarformi og kom AA-bókin út í apríl 1939. Þar má finna bataleið AA-samtakanna, reynslusporin tólf. Þegar ákveðnir byrjunarörðugleikar voru að baki uxu samtökin gríðarlega á mjög stuttum tíma og dreifðust um gervöll Bandaríkin. Þar komust fyrstu íslendingarnir í kynni við þau.

Stofnfundur AA-samtakanna á Íslandi var haldinn föstudaginn 16. apríl 1954. Þeir sem boðuðu til fundarins höfðu ekki áttað sig á því að föstudaginn sem þeir boðuðu til fundarins, bar upp á föstudaginn langa. En af þessari tilviljun miðast afmæli AA-samtakanna á Íslandi því við föstudaginn langa ár hvert.

Stofnfélagar voru 14, en í vetrarbyrjun stofnárið 1954 voru félagar orðnir 80. Lengi vel var haldinn einn, en síðar tveir fastir AA-fundir í viku hverri. Sjúkum var hjúkrað á ýmsum stöðum, fyrst kom Bláa bandið 1955 og í framhaldinu Flókadeild Kleppsspítalans. AA meðlimir gengu ötulega fram við að hjálpa hvor öðrum þegar svo bar undir.

Á áttunda áratugnum varð aftur mikill vöxtur í AA-samtökunum á Íslandi er íslendingar fóru að leita sér hjálpar við alkóhólisma hjá Freeport sjúkrahúsinu í Bandaríkjunum. Þá hóf starfsemi sína Vífilstaðadeild Landspítala Íslands 1976. Margir vesturfarar og fleiri stofnuðu AA deildir þegar heim kom.

Samtök áhugafólks um áfengisvandann, SÁÁ, voru stofnuð 1977, en þau samtök komu upp sjúkrahúsi og meðferðarstöðvum sem voru sérhæfðar í meðferð alkóhólisma. Samskipti milli AA og SÁÁ sem og annarra meðferðarstofnanna hafa verið farsæl frá fyrstu tíð.

AA-samtökin á Íslandi hafa haldið áfram að eflast og stækka fram á þennan dag. Nú eru haldnir rétt um 300 íslenskir AA-fundir á viku hverri eða u.þ.b. 16.000 þúsund fundir á ári. Má nærri geta að margir hafa öðast nýtt og betra líf fyrir tilstilli þeirra.