"Sérhver AA-deild ætti að vera sjálfráða nema í málefnum sem snerta aðrar deildir eða samtökin í heild". Deildin getur því haldið fundi með hvaða sniði sem henni þykir við hæfi, en algengastir eru:
Lokaðir fundir.
Aðeins fyrir alkóhólista. Venjulega óformlegar umræður sem helgaðar eru vandamálum félagsmanna, sporunum tólf og erfðavenjunum tólf. Þetta eru aðallega pontufundir eða hringborðsfundir.
Opnir fundir.
Ætlaðir öllum sem hafa áhuga, en að öðru leiti ekkert frábrugðnir lokuðum fundum.
Sporafundir.
Þar sem sporin, sem eru grundvallaratriði í bata okkar, eru tekin fyrir og rædd eitt í einu eða fleiri.
Ræðumanna- og sögufundir. (Speakerfundir)
Þar sem framsögumaður segir sögu sína og svarar fyrirspurnum. Hann talar þá í um það bil 45 mínútur.
Kynningarfundir.
Ræðumannafundir þar sem lögð er áhersla á að upplýsa almenning um AA-samtökin.
Samvisku- og deildarstarfsfundir.
Flestar deildir halda sérstaka fundi nokkrum sinnum á ári, auk fastra funda, þar sem þjónustunefndarmenn skýra félögunum frá störfum og þjónustu, og vandamál innan deildarinnar eru rædd og leyst.
(Bæklingurinn AA-deildin þar sem það allt byrjar, 2006, bls. 8-9)
Önnur fundarform.
Fundir sem merktir eru í fundaskrá með orðunum Konur eða Karlar eru samkvæmt orðanna hljóðan haldnir af og ætlaðir hvoru kyni fyrir sig. Á sama hátt eru fundir merktir LGBT fyrir samkynhneigða. Á Bókarfundi er lesið úr AA-bókinni og tjáning fundarins er þá oftast um það efni sem var lesið. Þessir fundir, þar sem ritað efni AA-samtakanna er tekið fyrir, hafa það að markmiði að lesa í gegnum bækurnar yfir ákveðið tímabil og svo er byrjað að nýju. Fundi sem merktir eru Víkingar halda þeir sem þekkja vel þá vá að hrasa á göngunni til batans. Fundir sem merktir eru með orðinu Nýliðar leggja áherslu á þá ábyrgð að taka vel á móti nýju fólki, sem er jafnvel að koma á sinn fyrsta fund. Það þýðir auðvitað samt ekki að illa sé tekið á móti nýliðum á öðrum fundum! - enda veit sérhver AA maður hvað það getur verið mikil reynsla að koma á sinn fyrsta fund. Sumar deildir halda Erfðavenjufundi, oft með einhverju millibili, t.d. fyrsta eða síðasta fund í mánuði og þá er lesin ein erfðavenja eða á annan hátt minnt á þær.
Það hafa komið fram fleiri fundarform sem hafa fest rætur hér heima, oftast að erlendri fyrirmynd. Má þar nefna 11. Spors Hugleiðslufundi, en þar hefst fundur með hugleiðslu í anda ellefta sporsins að loknum inngangi og fólk tjáir sig svo yfirleitt í tengslum við það. PPG Primary Purpose Group, er einnig eitt fundarform, en það eru opnir fundir, þar sem farið er nákvæmlega ofan í AA-bókina og spurningar henni tengdar, en ekki er þar eiginleg tjáning. Enn fleiri fundarform finnast, enda eru deildir sjálfráða í eigin málum og samviska deildarinnar ákveður hvernig deildin starfar.
"Hvenær sem tveir eða þrír alkóhólistar koma saman í þeim tilgangi að hætta að drekka mega þeir kalla sig AA-deild svo framarlega sem hún tengist ekki öðrum samtökum." (Sporabókin, 2010 bls. 146-147)