895-1050 - Stór-Reykjavíkursvæðið

849-4012 - Akureyri

Fundir sem merktir eru í fundaskrá með orðunum Konur eða Karlar eru samkvæmt orðanna hljóðan haldnir af og ætlaðir hvoru kyni fyrir sig. Á sama hátt eru fundir merktir Gay fyrir samkynhneigða. Fundir sem merktir eru Spor eru svokallaðir sporafundir, en þá er lesið eitt spor á fundinum, úr bókinni Tólf reynsluspor og Tólf erfðavenjur og yfirleitt talað út frá því spori. Á Bókarfundi er lesið úr AA bókinni og tjáning fundarins er þá oftast um það efni sem var lesið. Þessir fundir, þar sem ritað efni AA samtaknna er tekið fyrir, hafa það að markmiði að lesa í gegnum bækurnar yfir ákveðið tímabil og svo er byrjað að nýju. Fundi sem merktir eru Víkingar halda þeir sem þekkja vel þá vá að hrasa á göngunni til batans. Svo eru þeir sem merktir eru Speaker, það eru sögufundir þar sem fengið er fólk til að segja sögu sína ítarlega og náið, yfirleitt einn sem talar í klukkutíma eða tveir sem tala hvor í hálfa klukkustund. Fundir sem merktir eru með orðinu Nýliðar leggja áherslu á þá ábyrgð að taka vel á móti nýju fólki, sem er jafnvel að koma á sinn fyrsta fund. Það þýðir auðvitað samt ekki að illa sé tekið á móti nýliðum á öðrum fundum! - enda veit sérhver AA maður hvað það getur verið mikil reynsla að koma á sinn fyrsta fund. Sumar deildir halda svokallaða Erfðavenjufundi, oft með einhverju millibili, t.d. fyrsta eða síðasta fund í mánuði og þá er lesin ein erfðavenja eða á annan hátt minnt á þær.

Opinn fundur þýðir, að allir eru velkomnir sem áhuga hafa á að kynna sér AA samtökin, en þeir eru eins og aðrir AA fundir að því leyti, að höfuðtilgangurinn er að gera okkur kleift að ódrukkin áfram og að styðja aðra alkóhólista til hins sama. Þá fundi sækja oft til dæmis vinir, ættingjar eða makar alkóhólistans með honum og einnig þeir sem vilja bara vita meira um okkur. Sé ekki annað tekið fram eru fundir ,,lokaðir."  Þá eru þeir eingöngu fyrir alkóhólista eða fólk sem finnst það eiga við drykkjuvandamál að stríða og hefur löngun til að hætta að drekka. Við treystum því að þetta sé virt, enda snýst sérhver AA fundur um alkóhólismann en ekki önnur málefni eða markmið.

Það hafa komið fram fleiri fundarform á nýliðnum árum sem hafa fest rætur hér heima, oftast að erlendri fyrirmynd. Má þar nefna 11. Spors Hugleiðslufundi, en þar hefst fundur með hugleiðslu í anda ellefta sporsins að loknum inngangi og fólk tjáir sig svo yfirleitt í tengslum við það. ,,Primary Purpose Group" eða PPG, er einnig eitt fundarform, en það eru opnir fundir, þar sem farið er nákvæmlega ofan í AA bókina og spurningar henni tengdar, en ekki er þar eiginleg tjáning. Enn fleiri fundarform finnast, enda eru deildir sjálfráða í eigin málum og samviska deildarinnar ákveður hvernig deildin starfar.