Í byrjun hvers árs sendir skrifstofa landsþjónustunefndar tvö skráningarblöð til allra AA-deilda á Íslandi. Annað er frjá kjörnefnd vegna þjónustu í landsþjónustunefnd. Hitt vegna landsþjónusturáðstefnunnar. Samviska hverrar deildar tekur þessi mál fyrir á samviskufundi og kjósi hún svo, sendir hún innan tilskilins tíma, skráningarblað/blöð útfyllt aftur til baka á skrifstofu AA samtakanna, svo úr megi vinna.
- Blað kjörnefndar um tilnefningu til þjónustu í landsþjónustunefnd er sent út í janúar. Vinsamlega látið vita ef það berst ekki til AA-deildarinnar þinnar.
- Blað til skráningar á landsþjónusturáðstefnuna er sent út í febrúar, sjá sýnishorn.
Í nóvember ár hvert er hefð fyrir því að halda erfðavenjumánuð á Íslandi. Þá er sent út bréf til deilda með spurningalistum þar sem íhuga má erfðavenjurnar og rifja þær upp. Þetta efni er einnig aðgengilegt á heimasíðunni: Lesa erfðavenjubréfið
Þessi þrjú bréf eru send árvisst. Fleiri bréf geta verið send út frá skrifstofunni en það er tilfallandi.
Athugið sérstaklega að bréfin eru send út til AA-deilda samkvæmt fundaskrá AA-samtakanna og af því leiðir að ekki berst póstur til þeirra AA-deilda sem ekki eru rétt skráðar þar. Gott er að AA-félagar láti AA skrifstofuna vita berist bréf ekki til deildarinnar, svo úr megi bæta. Einnig þurfa þjónustunefndir einstakra deilda að huga að því hvernig póstur berst til þeirra deilda sem starfa í kirkjum og öðrum samkomuhúsum.
Nú mun samstarfsnefnd AA-deilda á Stór-Reykjavíkursvæðinu (SAAS) einnig senda bréf árlega til AA-deilda á höfuðborgarsvæðinu til að kynna sitt starf og gefa deildunum kost á að tilnefna fólk til þjónustustarfa.
Sérstaklega þarf að athuga að það eru tímamörk á skráningu vegna landsþjónusturáðstefnunnar og vegna framboðs til þjónustu í landsþjónustunefnd og því vert að gefa því gaum að því að bréf berist.
Bréf sem berast AA-deildum eru til allra AA-félaga sem deildina sækja og eru því lesin upp á fundi og fjallað frekar um efni þeirra á samviskufundi. Ef frekari upplýsinga er óskað má fá þær á þjónustuskrifstofu AA-samtakanna.