Inngangsorð AA-samtakanna
AA-samtökin eru félagsskapur fólks sem samhæfir reynslu sína, styrk og vonir svo að það megi leysa sameiginlegt vandamál sitt og sé fært um að hjálpa öðrum til að losna frá áfengisbölinu.
Til þess að gerast AA félagi þarf aðeins eitt: Löngun til að hætta að drekka. Inntöku- eða félagsgjöld eru engin, en með innbyrðis samskotum sjáum við okkur efnalega farborða.
AA-samtökin eru sjálfstæð heild og óháð hvers kyns félagsskap öðrum. Þau halda sig utan við þras og þrætur og taka ekki afstöðu til opinberra mála.
Höfuðtilgangur okkar er að vera ódrukkin og að styðja aðra alkóhólista til hins sama.
Inngangsorð AA-samtakanna. Höfundarréttur © A.A. Grapevine, Inc.
AA-deildin er undirstaða starfsins. Hver deild er sjálfstæð nema í málum sem koma öðrum deildum eða heildarsamtökunum við.
Engin deild hefur húsbóndavald yfir meðlimum sínum.Félagarnir skiptast á þjónustustörfum við stjórn deildarinnar, stutt tímabil í senn.
Hver deild heldur reglulega fundi, þar sem félagarnir segja hver öðrum reynslu sína, venjulega með hliðsjón af hinum tólf ráðgefandi reynslusporum og tólf erfðavenjum.
Reynslusporin eru andlegir vegvísar á leiðinni til batans, en erfðavenjurnar fjalla um samskipti og félagslega afstöðu innan samtakanna og utan.
Haldnir eru “opnir“ fundir fyrir alla sem áhuga hafa á starfsemi samtakanna og “lokaðir“ fundir, sem aðeins eru ætlaðir alkóhólistum.
AA má lýsa sem aðferð í meðhöndlun alkóhólisma, þar sem einstaklingarnir koma fram sem þátttakendur í hóplækningu í þágu hvers annars.
Þannig miðla þeir hver öðrum af gagnkvæmri reynslu sinni, meðan þeir þjáðust af alkóhólisma og leituðust við að fá lækningu.
Alkóhólismi er að okkar dómi stigversnandi sjúkdómur - líkamlegur og andlegur í senn. Alkóhólistarnir, sem við þekkjum, virðast hafa misst getuna til að hafa hemil á vínneyslu sinni.
AA-samtökin eru alþjóðlegur félagsskapur karla og kvenna, sem ástunda gagnkvæma hjálp til að lifa lífinu án áfengis og miðla öðrum, sem ennþá eiga við drykkjuvandamál að stríða, fúslega af reynslu sinni. Aðferðir AA-manna byggjast á ,,reynslusporunum tólf" sem vísa veginn til bata frá alkóhólisma.
Í samtökunum starfa um það bil 89.000 deildir í 145 löndum. Hundruð þúsunda alkóhólistar hafa öðlast bata eftir leiðum AA-samtakanna, en AA-menn sjálfir viðurkenna að aðferðir þeirra leiði ekki ætíð til árangurs meðal allra alkóhólista og að sumir þeirra þarfnist sérfræðilegra ráðlegginga eða læknismeðferðar.
AA ber aðeins bata einstaklinganna, sem leita til samtakanna, fyrir brjósti, þannig að þeir fái lifað lífinu óslitið án áfengis. Hreyfingin stundar ekki rannsóknir á sviði alkóhólisma, né heldur lyfja- og geðlækningar. Hún skipar sér hvergi í flokk, þótt AA-félagar megi gera svo að vild sem einstaklingar.
Hreyfingin hefur tileinkað sér þá stefnu að vera fús til óháðrar samvinnu við önnur samtök, sem hafa vandamál alkóhólismans að viðfangsefni.
AA-samtökin á Íslandi stefna að því að vera sjálfum sér nóg með tilstilli eigin deilda og meðlima og að hafna utanaðkomandi fjárhagsaðstoð. AA-menn gæta nafnleyndar í samskiptum við fjölmiðla.
Síða 2 af 2