Inngangsorð AA-samtakanna
AA-samtökin eru félagsskapur fólks sem samhæfir reynslu sína, styrk og vonir svo að það megi leysa sameiginlegt vandamál sitt og sé fært um að hjálpa öðrum til að losna frá áfengisbölinu.
Til þess að gerast AA félagi þarf aðeins eitt: Löngun til að hætta að drekka. Inntöku- eða félagsgjöld eru engin, en með innbyrðis samskotum sjáum við okkur efnalega farborða.
AA-samtökin eru sjálfstæð heild og óháð hvers kyns félagsskap öðrum. Þau halda sig utan við þras og þrætur og taka ekki afstöðu til opinberra mála.
Höfuðtilgangur okkar er að vera ódrukkin og að styðja aðra alkóhólista til hins sama.
Inngangsorð AA-samtakanna. Höfundarréttur © A.A. Grapevine, Inc.
Hlutverk Landsþjónustunefndar (LÞN) er eftirfarandi:
- Standa vörð um erfðavenjur, hugtök og reynsluspor AA-samtakanna
- Hafa umsjón með eigum AA-samtakanna
- Reka skrifstofu í Reykjavík
- Skipa nefndir sem sinna sérstökum verkefnum innan AA-samtakanna
- Kalla saman og undirbúa Landsþjónusturáðstefnu
Starfsár Landsþjónustunefndar er frá 1. maí ár hvert og til loka apríl árinu seinna. Miðast það við árlega ráðstefnu AA samtakanna sem haldin er í maí á hverju ári en hefst þá um leið nýtt starfsár. Landsþjónustunefnd kemur saman mánaðarlega að jafnaði og hefur sú hefð skapast að miða við síðasta mánudag í hverjum mánuði. Nefndin hittist þó ekki formlega eftir ráðstefnuna, fyrr en í ágúst eða september, eftir sumarleyfi.
Meiri fróðleik um um störf og hlutverk LÞN má finna í þjónustuhandbókinni.