Inngangsorð AA-samtakanna
AA-samtökin eru félagsskapur fólks sem samhæfir reynslu sína, styrk og vonir svo að það megi leysa sameiginlegt vandamál sitt og sé fært um að hjálpa öðrum til að losna frá áfengisbölinu.
Til þess að gerast AA félagi þarf aðeins eitt: Löngun til að hætta að drekka. Inntöku- eða félagsgjöld eru engin, en með innbyrðis samskotum sjáum við okkur efnalega farborða.
AA-samtökin eru sjálfstæð heild og óháð hvers kyns félagsskap öðrum. Þau halda sig utan við þras og þrætur og taka ekki afstöðu til opinberra mála.
Höfuðtilgangur okkar er að vera ódrukkin og að styðja aðra alkóhólista til hins sama.
Inngangsorð AA-samtakanna. Höfundarréttur © A.A. Grapevine, Inc.
Bréf til allra AA-deilda á Íslandi.
20.05.2025
Málefni: Óskað er eftir tillögum til að taka til umfjöllunar á landsþjónusturáðstefnunni.
Leiðbeiningar um tillögur og spurningar fyrir landsþjónusturáðstefnuna.
20.05.2025
Hin árlega þjónusturáðstefna AA-samtakanna á Íslandi er haldin á laugardegi í maí ár hvert. Allar AA-deildir á Íslandi geta sent einn fulltrúa á ráðstefnuna. Skráningarbréfið á ráðstefnuna verður sent öllum AA-deildum í febrúar og skráningarfrestur á ráðstefnuna er út apríl.
Ráðstefnan stendur í einn dag og fá skráðir ráðstefnugestir dagskrá senda með tölvupósti dagana fyrir ráðstefnuna, en önnur gögn eru afhent við komuna.
Athugið að aðeins ráðstefnuskráðir AA-félagar sitja ráðstefnuna.
Landsþjónusutráðstefnan setin af AA-félögum, en fyrirkomulag okkar á Íslandi er þannig að hver AA-deild getur sent einn fulltrúa á ráðstefnuna. Einnig sitja hana landsþjónustumenn, en landsþjónustunefnd heldur ráðstefnuna og að auki sitja fulltrúar ýmis annars nefndarstarfs á vegum AA-samtakanna. Æskilegt er þó að þeir séu sendir á vegum sinnar AA-deildar, til þess að skekkja ekki vægi deilda. Allt eru þetta AA-félagar, en undantekning á þessu eru ei-alkarnir þrír.
Samkvæmt erfðavenjum AA-samtakanna um nafnleynd og vegna sérstöðu samtakanna sitja hana ekki aðrir gestir en að ofan getur. Fundargerðir eldri ráðstefna eru á heimasíðunni en nöfnum manna er þá breytt þannig að upphafsstafir einir koma í stað nafnsins. Vegna sérstöðu íslenska nafnakerfisins þykir ekki nóg að taka eingöngu út eftirnafn manna eins og gert er t.d. í Ameríku og víðar og hafa upphafsstaf þar, því að á Íslandi er almennt notað skírnarnafn um menn. Þetta er gert í anda elleftu og tólftu erfðavenju AA-samtakanna um nafnleynd á opinberum vettvangi og með sameiginlega velferð okkar í huga.