Inngangsorð AA-samtakanna
AA-samtökin eru félagsskapur fólks sem samhæfir reynslu sína, styrk og vonir svo að það megi leysa sameiginlegt vandamál sitt og sé fært um að hjálpa öðrum til að losna frá áfengisbölinu.
Til þess að gerast AA félagi þarf aðeins eitt: Löngun til að hætta að drekka. Inntöku- eða félagsgjöld eru engin, en með innbyrðis samskotum sjáum við okkur efnalega farborða.
AA-samtökin eru sjálfstæð heild og óháð hvers kyns félagsskap öðrum. Þau halda sig utan við þras og þrætur og taka ekki afstöðu til opinberra mála.
Höfuðtilgangur okkar er að vera ódrukkin og að styðja aðra alkóhólista til hins sama.
Inngangsorð AA-samtakanna. Höfundarréttur © A.A. Grapevine, Inc.
Í byrjun hvers árs sendir skrifstofa landsþjónustunefndar tvö skráningarblöð til allra AA-deilda á Íslandi. Annað er frjá kjörnefnd vegna þjónustu í landsþjónustunefnd. Hitt vegna landsþjónusturáðstefnunnar. Samviska hverrar deildar tekur þessi mál fyrir á samviskufundi og kjósi hún svo, sendir hún innan tilskilins tíma, skráningarblað/blöð útfyllt aftur til baka á skrifstofu AA samtakanna, svo úr megi vinna.
- Blað kjörnefndar um tilnefningu til þjónustu í landsþjónustunefnd er sent út í janúar. Vinsamlega látið vita ef það berst ekki til AA-deildarinnar þinnar.
- Blað til skráningar á landsþjónusturáðstefnuna er sent út í febrúar, sjá sýnishorn.
Í nóvember ár hvert er hefð fyrir því að halda erfðavenjumánuð á Íslandi. Þá er sent út bréf til deilda með spurningalistum þar sem íhuga má erfðavenjurnar og rifja þær upp. Þetta efni er einnig aðgengilegt á heimasíðunni: Lesa erfðavenjubréfið
Þessi þrjú bréf eru send árvisst. Fleiri bréf geta verið send út frá skrifstofunni en það er tilfallandi.
Athugið sérstaklega að bréfin eru send út til AA-deilda samkvæmt fundaskrá AA-samtakanna og af því leiðir að ekki berst póstur til þeirra AA-deilda sem ekki eru rétt skráðar þar. Gott er að AA-félagar láti AA skrifstofuna vita berist bréf ekki til deildarinnar, svo úr megi bæta. Einnig þurfa þjónustunefndir einstakra deilda að huga að því hvernig póstur berst til þeirra deilda sem starfa í kirkjum og öðrum samkomuhúsum.
Nú mun samstarfsnefnd AA-deilda á Stór-Reykjavíkursvæðinu (SAAS) einnig senda bréf árlega til AA-deilda á höfuðborgarsvæðinu til að kynna sitt starf og gefa deildunum kost á að tilnefna fólk til þjónustustarfa.
Sérstaklega þarf að athuga að það eru tímamörk á skráningu vegna landsþjónusturáðstefnunnar og vegna framboðs til þjónustu í landsþjónustunefnd og því vert að gefa því gaum að því að bréf berist.
Bréf sem berast AA-deildum eru til allra AA-félaga sem deildina sækja og eru því lesin upp á fundi og fjallað frekar um efni þeirra á samviskufundi. Ef frekari upplýsinga er óskað má fá þær á þjónustuskrifstofu AA-samtakanna.
"Sérhver AA-deild ætti að vera sjálfráða nema í málefnum sem snerta aðrar deildir eða samtökin í heild". Deildin getur því haldið fundi með hvaða sniði sem henni þykir við hæfi, en algengastir eru:
Lokaðir fundir.
Aðeins fyrir alkóhólista. Venjulega óformlegar umræður sem helgaðar eru vandamálum félagsmanna, sporunum tólf og erfðavenjunum tólf. Þetta eru aðallega pontufundir eða hringborðsfundir.
Opnir fundir.
Ætlaðir öllum sem hafa áhuga, en að öðru leiti ekkert frábrugðnir lokuðum fundum.
Sporafundir.
Þar sem sporin, sem eru grundvallaratriði í bata okkar, eru tekin fyrir og rædd eitt í einu eða fleiri.
Ræðumanna- og sögufundir. (Speakerfundir)
Þar sem framsögumaður segir sögu sína og svarar fyrirspurnum. Hann talar þá í um það bil 45 mínútur.
Kynningarfundir.
Ræðumannafundir þar sem lögð er áhersla á að upplýsa almenning um AA-samtökin.
Samvisku- og deildarstarfsfundir.
Flestar deildir halda sérstaka fundi nokkrum sinnum á ári, auk fastra funda, þar sem þjónustunefndarmenn skýra félögunum frá störfum og þjónustu, og vandamál innan deildarinnar eru rædd og leyst.
(Bæklingurinn AA-deildin þar sem það allt byrjar, 2006, bls. 8-9)
Önnur fundarform.
Fundir sem merktir eru í fundaskrá með orðunum Konur eða Karlar eru samkvæmt orðanna hljóðan haldnir af og ætlaðir hvoru kyni fyrir sig. Á sama hátt eru fundir merktir LGBT fyrir samkynhneigða. Á Bókarfundi er lesið úr AA-bókinni og tjáning fundarins er þá oftast um það efni sem var lesið. Þessir fundir, þar sem ritað efni AA-samtakanna er tekið fyrir, hafa það að markmiði að lesa í gegnum bækurnar yfir ákveðið tímabil og svo er byrjað að nýju. Fundi sem merktir eru Víkingar halda þeir sem þekkja vel þá vá að hrasa á göngunni til batans. Fundir sem merktir eru með orðinu Nýliðar leggja áherslu á þá ábyrgð að taka vel á móti nýju fólki, sem er jafnvel að koma á sinn fyrsta fund. Það þýðir auðvitað samt ekki að illa sé tekið á móti nýliðum á öðrum fundum! - enda veit sérhver AA maður hvað það getur verið mikil reynsla að koma á sinn fyrsta fund. Sumar deildir halda Erfðavenjufundi, oft með einhverju millibili, t.d. fyrsta eða síðasta fund í mánuði og þá er lesin ein erfðavenja eða á annan hátt minnt á þær.
Það hafa komið fram fleiri fundarform sem hafa fest rætur hér heima, oftast að erlendri fyrirmynd. Má þar nefna 11. Spors Hugleiðslufundi, en þar hefst fundur með hugleiðslu í anda ellefta sporsins að loknum inngangi og fólk tjáir sig svo yfirleitt í tengslum við það. PPG Primary Purpose Group, er einnig eitt fundarform, en það eru opnir fundir, þar sem farið er nákvæmlega ofan í AA-bókina og spurningar henni tengdar, en ekki er þar eiginleg tjáning. Enn fleiri fundarform finnast, enda eru deildir sjálfráða í eigin málum og samviska deildarinnar ákveður hvernig deildin starfar.
"Hvenær sem tveir eða þrír alkóhólistar koma saman í þeim tilgangi að hætta að drekka mega þeir kalla sig AA-deild svo framarlega sem hún tengist ekki öðrum samtökum." (Sporabókin, 2010 bls. 146-147)
Það er sameiginleg samviska hverrar deildar sem tekur ákvarðanir um hennar innri mál, svo sem fundarform, fundartíma, þjónustu og annað tengt fundinum. Samviska deildarinnar skilgreinir hana. Þegar talað er um ,,kjarna deildar" er átt við það fólk sem að jafnaði sækir fundinn. Í AA samtökunum eru engir stjórnendur eða yfirmenn, heldur tölum við gjarnan um þjóna sem við treystum: fólk sem tekur að sér að vinna störfin sem þarf að vinna. Það á jafnt við um þann sem hellir upp á, gjaldkerann sem heldur utan um fjármálin, bókafulltrúann sem sér um að alltaf finnist AA lesefni á fundinum og svo mætti telja. Þess vegna er talað um þjónustunefnd, en hana myndar þessi hópur, en í hann er valið á samviskufundum. Mismunandi er hversu formlegir og formfastir samviskufundirnir eru en reyndir AA menn vita að það er nauðsynlegt að halda samviskufundi, þar sem rödd deildarinnar getur heyrst og fólk talað saman. Þannig má koma í veg fyrir togstreitu og óánægju sem annars getur kraumað undir niðri, skaðleg fyrir heildina.
Segja má að samviskufundir séu eitt fundarformið enn, en þó hefur hann allt annan blæ en venjulegur AA fundur. Viðeigandi er að fólk sem að jafnaði sækir fundinn, taki þátt í að móta starf hans. Samviskufundur er haldinn fyrir eða eftir venjulegan fund og boðað til hans með viku fyrirvara, þ.e. á næsta fundi áður. Sumar deildir halda reglulega samviskufundi, mánaðarlega eða ársfjórðungslega, en aðrar óreglulega. Á samviskufundum er leitt til lykta hvernig staðið verður að málum í deildinni og með kosningu ef þess þarf. Þannig má segja að samviska deildarinnar sé sameiginlegur vilji þeirra sem fundinn sækja, eða meirihluta hópsins.
Hefð er fyrir því á Íslandi að AA deildir geti leitað til landsþjónustunefndar með aðstoð við að halda samviskufundi. Hafið samband á skrifstofu landssamtakanna sé aðstoðar óskað við að halda samviskufund.
Á sama hátt og samviska deilda er hinn eiginlegi leiðtogi hennar, má segja að nefndir geti einnig haldið samviskufundi. AA samtökin eru aldrei formlega skipulögð, samkvæmt níundu erfðavenjunni. Þau ráð eða nefndir sem kosið er í til starfa fyrir AA samtökin geta þannig látið sameiginlega samvisku leiða til lykta sína starfshætti á svipaðan hátt og AA deildir gera.
Skráðir fundir eru haldnir á sama tíma vikulega. Inngangsorð AA samtakanna eru lesin í upphafi fundar til að minna okkur á tilgang samtakanna, markmið þeirra og leiðir. Inngangsorðin eru eins í öllum löndum, þýdd í hverju landi fyrir sig: þau má lesa hér.
Í fundarlok tíðkast hjá flestum deildum að lesa úr erfðavenjunum, sérstaklega þá þriðju, sjöundu og tólftu, en þær minna okkur á að taka vel á móti nýliðum, á fjárhagslegt sjálfstæði deilda og á nafnleyndina. Stundum eru þær allar lesnar. Síðast er farið með bæn, yfirleitt æðruleysisbænina.
Við AA menn og konur samhæfum reynslu okkar styrk og vonir á AA fundum, sem alkóhólistar. Í einföldustu mynd má því segja að hefðbundinn AA fundur hefst á því að leiðari les inngangsorðin og opnar fundinn með því að deila reynslu sinni eða sögu með fundarmönnum. Síðan er orðið ýmist gefið laust eða að gengin er ákveðin tjáningaröð og síðan er orðið gefið laust í lok fundar, en þá rétta þeir upp hendur sem vilja tjá sig. Stundum kemur leiðari með tillögu að sérstöku umræðuefni sem hann vill samhæfa um, en oftast er umræðuefni frjálst. Að lokum er fundi slitið á þann hátt sem að ofan getur.
Í sumum deildum er bætt við innganginn eða lokaorðin, t.d. lestri úr AA bókinni eða öðrum AA bókmenntum, tilkynningum frá ritara deildar eða gjaldkera, lestri reynslusporanna og svo má áfram telja, enda er sérhver AA deild sjálfráða í þessum málum samkvæmt fjórðu erfðavenjunni.
Misjafnt getur verið hvernig deildir eru reknar og hvernig staðið er að þjónustu í þeim. Þær eiga það þó sammerkt að það eru AA félagarnir sjálfir sem vinna hin ýmsu störf tengt fundinum sínum. Húsaleiga, kaffivörur og slíkt er fjármagnað með samskotum AA félaganna. Þjónustunefnd eða einstakur félagi sér um að hella upp á, gera klárt og ganga frá.
Misjafnt er hversu margir eru í þjónustu deildar og hvernig mannaskipan/breytingum er háttað, enda eru deildir misstórar. Sjá má nánar um þetta í þjónustuhandbókinni hér á síðunni, en þar er að finna samþykkt viðmið fyrir AA samtökin á Íslandi.
Flestar deildir halda einn fund í viku, en sumar deildir fleiri, til dæmis úti á landi þar sem sama fólkið rekur og sækir deild sem heldur fundi tvisvar eða þrisvar í viku hverri.