Inngangsorð AA-samtakanna
AA-samtökin eru félagsskapur fólks sem samhæfir reynslu sína, styrk og vonir svo að það megi leysa sameiginlegt vandamál sitt og sé fært um að hjálpa öðrum til að losna frá áfengisbölinu.
Til þess að gerast AA félagi þarf aðeins eitt: Löngun til að hætta að drekka. Inntöku- eða félagsgjöld eru engin, en með innbyrðis samskotum sjáum við okkur efnalega farborða.
AA-samtökin eru sjálfstæð heild og óháð hvers kyns félagsskap öðrum. Þau halda sig utan við þras og þrætur og taka ekki afstöðu til opinberra mála.
Höfuðtilgangur okkar er að vera ódrukkin og að styðja aðra alkóhólista til hins sama.
Inngangsorð AA-samtakanna. Höfundarréttur © A.A. Grapevine, Inc.
Hátíðarfundur AA-samtakanna.
Stofnfundur AA-samtakanna á Íslandi var haldinn 16. apríl 1954, sem bar upp föstudaginn langa. Síðan þá hefur þessi dagur verið hátíðis- og afmælisdagur samtakanna, alveg sama hvaða mánaðardag hann ber uppá. AA-fólk og gestur frá Al-anon, sem eru samtök aðstandenda alkóhólista tala á fundinum.
Allt fundarefnið er kynnt jafnharðan á táknmáli.
Í dag eru starfandi um 360 deildir innan AA-samtakanna um land allt. Hver þessara deilda heldur að minnsta kosti einn fund í viku.
Föstudaginn langa, þann 18. apríl 2025 var hátíðarfundur AA-samtakanna haldinn í Háskólabíó.
Þjónustuskrifstofa AA-samtakanna er opin alla virka daga frá 11:00 - 15:00 og þar er einn starfsmaður.
Þjónustuskrifstofan veitir upplýsingar um starfsemi samtakanna, heldur utan um fundaskrá, auk þess að veita milligöngu erindum til landsþjónustunefndar sem og til annarra nefnda innan AA-samtakanna.
Skrifstofan þjónustar AA-deildir, AA-félaga og almenning, hefur á takteini bækur og bæklinga með AA-efni og greiðir úr þeim erindum sem berast inn á borð svo sem kostur er til.
AA-samtökin eru alþjóðlegur félagsskapur karla og kvenna, sem ástunda gagnkvæma hjálp til að lifa lífinu án áfengis og miðla öðrum, sem ennþá eiga við drykkjuvandamál að stríða, fúslega af reynslu sinni. Aðferðir AA-manna byggjast á ,,reynslusporunum tólf" sem vísa veginn til bata frá alkóhólisma.
Í samtökunum starfa um það bil 89.000 deildir í 145 löndum. Hundruð þúsunda alkóhólistar hafa öðlast bata eftir leiðum AA-samtakanna, en AA-menn sjálfir viðurkenna að aðferðir þeirra leiði ekki ætíð til árangurs meðal allra alkóhólista og að sumir þeirra þarfnist sérfræðilegra ráðlegginga eða læknismeðferðar.
AA ber aðeins bata einstaklinganna, sem leita til samtakanna, fyrir brjósti, þannig að þeir fái lifað lífinu óslitið án áfengis. Hreyfingin stundar ekki rannsóknir á sviði alkóhólisma, né heldur lyfja- og geðlækningar. Hún skipar sér hvergi í flokk, þótt AA-félagar megi gera svo að vild sem einstaklingar.
Hreyfingin hefur tileinkað sér þá stefnu að vera fús til óháðrar samvinnu við önnur samtök, sem hafa vandamál alkóhólismans að viðfangsefni.
AA-samtökin á Íslandi stefna að því að vera sjálfum sér nóg með tilstilli eigin deilda og meðlima og að hafna utanaðkomandi fjárhagsaðstoð. AA-menn gæta nafnleyndar í samskiptum við fjölmiðla.
895-1050 Stór-Reykjavíkursvæðið
849-4012 Akureyri
Neyðarsímar eru reknir af svæðis- og samstarfsnefndum í landshlutum, eftir því sem slíkar nefndir starfa.
Síminn er opinn allan sólarhringinn til að sinna alkóhólistum í neyð. Þegar einstaklingur, sem telur sig ekki ráða við áfengisneyslu sína hringir, er honum komið í samband við AA-félaga með sambærilega fyrri reynslu af vanda vegna áfengisneyslu, til aðstoðar og til að svara spurningum. Einnig svarar símaþjónustan öllum fyrirspurnum og reynt er að leysa úr þeim málum sem berast eftir því sem kostur er.
AA-félagar eru í sjálfboðastarfi við símann til að aðstoða þá sem hringja.
Neyðarsíminn er starfræktur í þeim anda innan AA-samtakanna sem segir:
"Ég ber ábyrgð
Þegar einhver, einhvers staðar,
biður um hjálp, vil ég
að útrétt hönd AA sé ávallt til staðar
og ég ber ábyrgð á því."
Dr. Bob, sem ásamt Bill W. er talinn stofnandi AA-samtakanna, hætti að drekka 10. júní 1935 og miðast stofnun samtakanna við þá dagsetningu. Með fulltingi þeirrar hugmyndafræði, sem þeir lögðu til grundvallar, hafði tveim árum seinna nógu mikill fjöldi alkóhólista verið allsgáður nægilega lengi til að sannfæra menn um að nýtt ljós væri tekið að skína í undirheimum ofdrykkjunnar.
Þeir tóku nú þá ákvörðun að draga saman reynslu sína og gefa út í bókarformi og kom AA-bókin út í apríl 1939. Þar má finna bataleið AA-samtakanna, reynslusporin tólf. Þegar ákveðnir byrjunarörðugleikar voru að baki uxu samtökin gríðarlega á mjög stuttum tíma og dreifðust um gervöll Bandaríkin. Þar komust fyrstu íslendingarnir í kynni við þau.
Stofnfundur AA-samtakanna á Íslandi var haldinn föstudaginn 16. apríl 1954. Þeir sem boðuðu til fundarins höfðu ekki áttað sig á því að föstudaginn sem þeir boðuðu til fundarins, bar upp á föstudaginn langa. En af þessari tilviljun miðast afmæli AA-samtakanna á Íslandi því við föstudaginn langa ár hvert.
Stofnfélagar voru 14, en í vetrarbyrjun stofnárið 1954 voru félagar orðnir 80. Lengi vel var haldinn einn, en síðar tveir fastir AA-fundir í viku hverri. Sjúkum var hjúkrað á ýmsum stöðum, fyrst kom Bláa bandið 1955 og í framhaldinu Flókadeild Kleppsspítalans. AA meðlimir gengu ötulega fram við að hjálpa hvor öðrum þegar svo bar undir.
Á áttunda áratugnum varð aftur mikill vöxtur í AA-samtökunum á Íslandi er íslendingar fóru að leita sér hjálpar við alkóhólisma hjá Freeport sjúkrahúsinu í Bandaríkjunum. Þá hóf starfsemi sína Vífilstaðadeild Landspítala Íslands 1976. Margir vesturfarar og fleiri stofnuðu AA deildir þegar heim kom.
Samtök áhugafólks um áfengisvandann, SÁÁ, voru stofnuð 1977, en þau samtök komu upp sjúkrahúsi og meðferðarstöðvum sem voru sérhæfðar í meðferð alkóhólisma. Samskipti milli AA og SÁÁ sem og annarra meðferðarstofnanna hafa verið farsæl frá fyrstu tíð.
AA-samtökin á Íslandi hafa haldið áfram að eflast og stækka fram á þennan dag. Nú eru haldnir rétt um 300 íslenskir AA-fundir á viku hverri eða u.þ.b. 16.000 þúsund fundir á ári. Má nærri geta að margir hafa öðast nýtt og betra líf fyrir tilstilli þeirra.